Um einhverfu...
Hvað er röskun á einhverfurófi?
Röskun á einhverfurófi, oft nefnd einhverfa, er þroskaröskun sem hefur áhrif á tengsl og samskipti barnsins við aðra. Börn og fullorðnir með einhverfu eiga í erfiðleikum með dagleg félagsleg samskipti. Hæfnin til að stofna til vináttusambanda og skilja geðhrif þeirra er oftast takmörkuð. Fólk með einhverfu er oft einnig með námsörðugleika en það sem er sameiginlegt með öllum sem eru með röskunina eru erfiðleikar í félagslegum samskiptum. Aspergersheilkenni tilheyrir einnig einhverfurófinu og á við þá sem eru ekki með þroskahömlun og oft með vægari einkenni.
Einhverfa er heiti yfir röskun í taugaþroska sem lýsir of mikilli eða of lítilli hegðun á þremur meginsviðum:
-
Félagsleg samskipti: erfiðleikar með tengslamyndun og samskipti, til dæmis að virðast öðrum fjarlægur og áhugalaus; og að njóta þess að vera einn.
- Mál- og tjáskipti: erfiðleikar með yrt og óyrt mál- og tjáskipti, til dæmis að skilja ekki að fullu algengar bendingar, svipbrigði eða blæbrigði í máli og ímyndunarleikur getur verið stutt á veg kominn.
- Sérkennileg og áráttukennd hegðun: barnið getur til dæmis verið óvenju upptekið af ákveðnum hugðarefnum, eða óvenjulegum hugðarefnum, verið með áráttur eða ritúöl, endurteknar eða óvenjulegar hreyfingar.
Þar að auki eru mörg börn með erfiða og óviðeigandi hegðun sem tengist breytingum á daglegri rútínu, svefn- og matarvenjum. Endurtekin reiðiköst og sjálfskaði er til staðar hjá sumum börnum en það er sennilega sú hegðun sem veldur mestri streitu hjá barninu og öðrum.
Hvað veldur einhverfu?
Orsök eða orsakir einhverfu eru ekki enn þekktar en rannsóknir hafa leitt í ljós að erfðaþættir virðast skipta máli. Rannsóknir benda einnig til að einhverfa tengist ýmsum þáttum sem hafa áhrif á þroska heila.
Viðvörunarmerki sem þarf að fylgjast með
Einkenni röskunar á einhverfurófi koma í ljós snemma á ævi barns, eða venjulega í kringum 14-18 mánaða aldur. Öll börn þroskast á sínum hraða. Börn þroskast á undraverðan hátt og þegar þau fylgja dæmigerðu þroskaferli sýna þau ýmsa hegðun sem er álitin sjálfsögð.
Góður byrjunarpunktur er að fylla út M-CHAT skimunarlistann (The Modified Checklist for autism in Toddlers; Robins, Fein, & Barton, 1999), en hann er til í íslenskri þýðingu og hægt að fá hann hjá greiningaraðilum.
Einnig er hægt er að sækja listann á íslensku og öðrum tungumálum, ásamt viðbótarefni á eftirfarandi vefsíðum ef ætlunin er að nota hann í starfi, í rannsóknum eða við fræðslustörf: www.firststigns.org eða á vefsíðu Dr. Robins (www.mchatscreen.com).
Frekari upplýsingar er hægt að skoða í umfjöllun okkar á vefsíðunni í kaflanum um greiningu.